Skip to content

Gæðamál

Gæða framleiðsla

Við framleiðslu á ís er mikilvægt að nota aðeins úrvals hráefni. Það þarf einnig gott starfsfólk sem vinnur við góðan vélakost til þess að framleiða úrvals KJÖRÍS-vöru. Hjá Kjörís ehf. hefur frá fyrstu tíð verið leitast við að halda gæðum ísvörunnar sem og öðrum framleiðsluvörum fyrirtækisins í hámarki. Við höfum kappkostað að setja aðeins á markað fyrsta flokks vöru unna úr fyrsta flokks hráefnum.

Kjörís var eitt af fyrstu matvælafyrirtækjum á landinu til að framfylgja reglugerðum heilbrigðisyfirvalda um uppsetningu innra eftirlitskerfis í sinni matvælavinnslu. GÁMES(HACCP) kerfið á þátt í að tryggja að góð vara rati inn á borð neytenda og tryggja að þú sem neytandi berir fyllsta traust til KJÖRÍS-vörunnar og sért þess fullviss að um gæðavöru sé að ræða. Jafnframt er leitast við að KJÖRÍS sé á hvers manns færi með því hafa gott verð fyrir neytandann.

Samkvæmt opinberum reglugerðum eiga frosin matvæli, þar með talinn ís, ekki að geymast við hærra hitastig en -18°C.

 

 

Sætuefnið Maltitol og notkun þess í Kjörís vörur

Sykuralkahólar gefa orku og hafa minni sætustyrk en sykur. Sykuralkahólar eru unnir úr plöntum eða sterkju en maltitol sem Kjörís notar er unnið úr sterkju. Nafnið bendir til tengsla við alkóhól en nafngiftin er komin til vegna efnafræðilegrar uppbyggingar efnisins en helmingur efnisins svipar til sykurs og hinn helmingurinn til alkahóls. Einhverjir kannast líka við nafnið “polyolar” sem einnig er notað um þessi sætuefni.

Maltitól sætir um 75% á við sykur en næringargildið er aðeins rúmur helmingur á við venjulegan sykur eða 2,7 cal/g. Blóðsykur hækkar mjög lítið við inntöku maltitols þar sem meltingarvegurinn á erfitt með upptöku efnisins og þar af leiðir skilar líkaminn um 90% af efninu frá sér. Mikil neysla á maltitoli getur valdið óþægindum í maga (gasmyndun) og jafnvel niðurgangi við mjög mikla neyslu. Maltitol er notað í læknaiðnaði sem hægðalosandi lyf en þá er efnið gefið í mun stærri skömmtun en notaðir eru í matvæli eins og í sykurlausum Kjörís-vörum.

Sykuralkóhólar eins og Xylitol hafa verið notuð í sælgæti og tyggigúmmí og einnig til varnar tannskemmdum. Listi yfir sykuralkóhóla sem notaðir eru m.a. í matvæli.

Kjörís notar maltitol í allar sínar sykurlausu vörur en einnig í vörur sem merktar eru “án viðbætts sykurs” þar sem enginn hvítur sykur er notaður, eingöngu maltitol og svo mjólkursykur sem er hluti af mjólkurvörum sem notaðar eru í framleiðslu Kjörís, eins og undanrennuduft.

 

Sætuefni

Sucrose(sykur)

Maltitol Sírop

Hydrogenated Starch Hydrolysate

Maltitol

Xylitol

Isomalt

Sorbitol

Lactitol

Mannitol

Erythritol

Sætir

100%

75%

33%

75%

100%

55%

60%

35%

60%

70%

Cal/g

4

3

2.8

2.7

2.5

2.1

2.5

2

1.5

0

 

Transfitusýrur

Ís frá Kjörís inniheldur engar transfitusýrur. Í framleiðslu okkar notum við fullherta jurtafeiti, kókosfeiti sem er án transfitusýra. Á flestum okkar umbúðum er tekið fram að ísinn okkar innihaldi minna en 1% transfitu sem er í samræmi við tækniupplýsingar framleiðanda feitinnar.

 

Asó-litarefni í Kjörís vörum.

Í gegnum árin höfum við notað ýmis litarefni í okkar ís og þar á meðal E-104 og E-129 sem teljast til asó-litarefna sem þykja umdeild. Asó-litarefnin eru leyfileg í ís og sósum og notkun þeirra hjá Kjörís er langt undir útgefnum viðmiðunum um hámarsknotkun. Nýleg skosk rannsókn á neyslu umræddra litarefna með ákveðnum rotvarnarefnum bendir til að samverkandi þættir þessara efna (asó-litarefna + rotvarnarefnið sodium benzoate) hafi örvandi áhrif á börn með ADHD. Rannsóknir frá 1982 hjá FAO/WHO og síðar 1983 hjá sérfræðinefnd EU komust að niðurstöðu um hámarsks ráðlagðan dagskammt hvers litarefnis fyrir sig sem stuðst hefur verið við síðan. Engu að síður eru asó-litarefnin umdeild og hafa sum hver ertandi áhrif á ofnæmi og asma hjá viðkvæmum einstaklingum. Magn þessara efna í Kjörísvörum er í öllum tilfellum langt undir 0,1% af heildarmagni vörunnar.

Kjörís vinnur engu að síður að því að skipta út þessum tveimur efnum fyrir önnur litarefni sem eru minna umdeild til að svara kröfum neytenda.

Það er Kjörís mikið kappsmál að framleiða gæðavörur sem neytendur geta treyst. Þess vegna geta ísunnendur óhikað haldið áfram að gæða sér á ís frá Kjörís með góðri samvisku.

 

Sykurminni vörur

– Það efni sem Kjörís notar sem “sætuefni” í ísinn er Maltitol.

– Maltitol er náttúrulegt efni í flokki með alkahól-sykrum sem eru unnin úr plöntum eða sterkjum (maltitol er unnið úr sterkjum). Þó svo að nafnið gefi til kynna áfengi er lítil hætta á að geta orðið fyrir áhrifum af þessum “sætuefnum” en samlíkingin kemur út frá efnafræðilegri uppbyggingu.

– Maltitol hefur ekki neikvæð áhrif á tannheislu.

– Maltitol sætir um 75% á við sykur en næringargildi aðeins rúmur helmingur á við sykur (sjá töflu).

– Blóðsykur hækkar mjög lítið af völdum Maltitol þar sem meltingarvegurinn á erfitt með upptöku og þar af leiðir skilar líkaminn um 90% af maltitolinu aftur frá sér.

– Mikil neysla á maltitol getur valdið óþægindum í maga(gasmyndun) og jafnvel niðurgangi í slæmum tilfellum (þarf að borða ansi mikið af okkar ís til þess!).

– Þar sem Kjörís merkir vörur sem „án viðbætts sykurs“ er átt við að enginn hvítur sykur er notaður í uppskrift (bara maltitol) en ekki má kalla vöruna sykurlausa þar sem mjólkursykur er í undanrennuduftinu sem við notum.

Sætuefni

Sucrose(sykur)

Maltitol Sírop

Hydrogenated Starch Hydrolysate

Maltitol

Xylitol

Isomalt

Sorbitol

Lactitol

Mannitol

Erythritol

Sætir

100%

75%

33%

75%

100%

55%

60%

35%

60%

70%

Cal/g

4

3

2.8

2.7

2.5

2.1

2.5

2

1.5

0

 

Vörur án viðbætts sykurs

– Ský – Vanilluís 1 ltr.

– Ský  – Jarðarberjaís 1 ltr

– Vélarís 6% ísblanda (án viðb.)

– 10 stk sykurminni Súkkul. flaugar (án viðb.)

– Vanillu mötun.box, 50 stk.  (án viðb.sykurs)

 

Algengustu ofnæmisvaldar

Algengustu ofnæmisvaldar

Algengast er að eftirtaldar fæðutegundir valdi ofnæmi: Mjólk, egg, fiskur, skelfiskur, sojabaunir, hnetur, jarðhnetur, ertur (grænar baunir) og hveiti. Það eru ákveðin prótein í þessum matvælum sem eru ofnæmisvakar og valda því ofnæmiseinkennum.

Mjólk og egg eru algengustu ofnæmisvaldarnir hjá börnum. Mjólkur- og eggjaofnæmi hjá börnum hverfur í flestum tilfellum á 1.-3. aldursári. Ofnæmi fyrir fiski, skelfiski og hnetum hverfur hins vegar sjaldnast. Þeir sem hafa ofnæmi fyrir fiski eru yfirleitt mjög næmir og þá er oftast um að ræða ofnæmi fyrir flestum fisktegundum þótt til séu undantekningar frá því. Ofnæmi fyrir rækjum, humri, hörpuskel, ostrum og kræklingi er einnig þekkt. Sojaprótein geta valdið sterkum ofnæmisviðbrögðum. Börn með ofnæmi fyrir mjólk geta einnig haft ofnæmi fyrir sojamjólk.

Mjólkurprótein í Kjörís vörum

Undanrennuduft er í öllum pakkaís, kúluís og toppís. Einnig er mjólkurprótein í Lúxuspinnum frá Kjörís. Súkkulaðidýfa og pinnasúkkulaði sem er á frostpinnum frá Kjörís eru einnig með mjólkurpróteinum. Eini ísinn sem er ekki með mjólkurpróteinum er Ananas Hlunkur og Ananas “Mínus” Hlunkur sem er án súkkulaðis. Einnig er sérframleitt Græn Flaug “án súkkulaðis” fyrir LHS ofl.

Soja prótein í Kjörís vörum

Soja prótein eða soja vörur eru aðeins að finna súkkulaðidýfu og pinnasúkkulaði frá Kjörís en ekki í ísnum sjálfum. Í öllu súkkulaði sem Kjörís notar er efni sem heitir “lesetin” og er unnið í flestum tilfellum úr sojabaunum.

Egg í Kjörís vörum

Egg er aðeins að finna í Konfekt-ístertum og 5 ltr. Konfekt-ís frá Kjörís. Þetta stafar af marengs sem er í þessum tegundum. Brauðform í ísbúðum eru ekki framleidd af Kjörís en ætla má að þau innihaldi egg. Öll bindiefni sem Kjörís notar eru ekki úr eggjum heldur úr jurtaríkinu (þang og gúmmíplöntum).

Hnetur í Kjörís vörum

Allir Grænir Frostpinnar(Froskaís) og Grænir Hlunkar eru með pistasíuhnetu-bragði. Einnig er skýrt tekið fram í innihaldslýsingu vöru ef um hnetur er að ræða í vörunni eins og í Pekan-Mjúkís, Núggat Mjúkís, Karamellu-Pekan 5 ltr. og fleiri tegundum. Sérskreyttar ísstertur eru með marsipani sem unnið er úr hnetum en þá er hægt að fá sykurpan í staðin ef óskað en það getur engu að síður innihaldið restar af möndlum(samkv. framleiðanda). Kjörís ábyrgist ekki með 100% vissu að í öðrum tegundum sé ekki restar af hnetum eða ísinn hafi einhverstaðar komist í snertingu við hnetu-agnir og/eða leifar.

Ekki eru sérstakt framleiðslurými fyrir hnetu og/eða möndluvörur!

Í framleiðslu Kjörís er alltaf leitast við að framleiða síðast á daginn (eða eitt og sér yfir framleiðsludag) þær vörur sem valda og/eða geta valdið ofnæmi eða ofnæmis-viðbrögðum. Hér er um að ræða hnetu og möndluís, rúsínuís, jarðarberjaís eða aðrar þær tegundir sem þekktar eru sem ofnæmisvaldur. Lagt mikið upp úr hreinsun og þrifum eftir slíkar framleiðslulotur.