Skip to content

Sagan

Fjölskyldufyrirtæki frá upphafi

Kjörís hóf starfsemi 31. mars 1969 í Hveragerði. Stofnendur fyrirtækisins voru Gylfi og Bragi Hinrikssynir ásamt Hafsteini, Guðmundi og Sigfúsi Kristinssonum. Frumkvöðlar að stofnun Kjöríss voru Hafsteinn, mjólkurtæknifræðingur, og Gylfi, véltæknifræðingur. Hafsteinn hafði starfað hjá Búnaðarsambandi Íslands og Osta og smjörsölunni áður en hann stofnaði Ostagerðina hf í Hveragerði 1966 sem hann rak í 2 ár. Gylfi rak heildsölu í Reykjavík, G.Hinriksson hf., ásamt því að hafa komið að rekstri Rjómaísgerðarinnar í upphafi sem var fyrsta ísgerð landsins.

Árið 2019 fagnaði Kjörís fimmtíu ára afmæli !

Sagan
Sagan

Upruni íss

Saga íss nær aftur til fjórðu aldar fyrir Krist þegar Alexander mikli lá veikur með hita. Líflæknir hans brá á það ráð að setja ís saman við safa og ávexti og gefa Alexander til þess að reyna að ná hitanum niður. Upp frá því hóf Alexander að krefjast þess að fá drykki sína borna fram á klaka þótt sækja þyrfti klakann um langan veg til fjalla. Saga íss er slitrótt og til eru ennþá eldri sögur af því er klaka var blandað saman við safa.

Ísinn sjálfur þróaðist aðeins meira löngu síðar á Ítalíu þar sem farið var að gera tilraunir með að blanda ís, ávaxtasafa og mjólk saman. Á svipuðum tíma tók frystitækni stórstígum framkvæmdum í Bandaríkjunum, sem var nauðsynleg forsenda þess að ísinn eins og við þekkjum hann í dag yrði til. Þróun frystitækni hófst í byrjun nítjándu aldar en fyrsta ísvélin sem fór á markað var smíðuð árið 1851 í Baltimore í Bandaríkjunum. Í kringum aldamótin 1900 fór ísframleiðsla loks að taka stórstígum framförum þegar Ítalir tóku að flytjast til Bandaríkjanna, það leiddi jafnframt til þess að fjölbreytni íss jókst gífurlega. Ís varð almenn söluvara í Bandaríkjunum upp úr 1930 og var tæknin flutt til Íslands um þrjátíu árum síðar.

Fjölbreytni

Framleiðslutegundir Kjörís voru í upphafi núgga, súkkulaði og vanillu pakkaís ásamt frostpinnum en fljótlega bættust við vörur eins og íspinnar, toppar, boltaís og ístertur. Í dag er Kjörís í samstarfi við aðra aðila, framleiðir ís fyrir önnur fyrirtæki auk þess að vera með umfangsmikinn innflutning á nokkrum af vinsælustu ís- og klakategundum í heimi. Kjörís flytur meðal annars inn hin vinsælu Mars og Snickers ísstykki ásamt fleiri vinsælum tegundum eins og M&M og Gulliver pinnana. Það má segja að Íslendingar séu mikil ísþjóð því ís hefur ávallt notið vinsælda allt árið um kring á Íslandi.  Kjörís hefur lengi boðið upp á ís sem inniheldur aðeins tæplega 6% fitu. Kjörís kemur til móts við neytendur sína og er engin furða að Kjörísinn hafi verið í uppáhaldi hjá þjóðinni til margra ára.

Sagan
Sagan

Vöxtur

Vinsældirnar hafa sýnt sig í því að fyrirtækið hefur vaxið jafnt og þétt frá stofnun þess, starfsemin byrjaði í 250 m2 húsnæði í Hveragerði en níu sinnum hefur verið byggt við upprunalega byggingu. Nú er svo komið að fyrirtækið er starfrækt í um 5000 m2 húsnæði, þremur húsum í Hveragerði ásamt dreifingaraðstöðu á Akureyri og á Ísafirði. Starfsmannafjöldi var í upphafi 7 en nú starfa um 50 manns hjá Kjörís.

Kjörís var í upphafi fjölskyldufyrirtæki og nú rúmum fjörutíu árum síðar er það enn svo. Fyrirtækið kemur ekki aðeins til móts við viðskiptavini sína heldur hefur það jafnframt haldið tryggð við heimabæ sinn, Hveragerði. Þar hefur fyrirtækið stækkað og blómstrað og er nú veigamikill hluti af atvinnulífi bæjarins.


Um fimmtíu manns hafa lífsviðurværi sitt af Kjörís sem dreifir og selur afurðir sínar til allra landshluta en fyrirtækið hefur yfir tíu frystibílum að ráða og rekur þar með eina öflugustu frystivörudreifingu landsins.

Frá upphafi hafa stjórnendur vitað að ef boðið er upp á gæðavöru, góða þjónustu og vöru á réttu verði, þá fjölgar ánægðum viðskiptavinum Kjöríss. Til þess að uppfylla áðurnefndar þarfir, þarf til þess samviskusama, duglega og ekki síst ánægða starfsmenn.  Með þeirra hjálp og tryggra neytenda er Kjörís leiðandi fyrirtæki í sinni grein í dag á Íslandi.