Fara í efni

Himmerlands is

Þegar Hafsteinn Kristinsson hafði neyðst til að hætta ostaframleiðslu sinni og tekið ákvörðun að hefja ísframleiðslu, hafði hann samband við kunninga sinn í Danmörku sem hét Gunnar Sauer. Sá var mjólkurfræðingur og rak blómlega ísgerð, Himmerlands is í Aars á Jótlandi. Hafsteinn skrifaði Gunnari hvort hann vildi hjálpa til við stofnun og uppkeyrslu ísgerðar á Íslandi og í stuttu máli svaraði þessi geðþekki dani, „med største glæde“. Hann varð uppfrá þessu mikill Íslands og fjölskylduvinur, kom oft til Íslands og naut landsins og náttúrunnar.

 
                                                                                            Gunnar Sauer og Hafsteinn Kristinsson smakka til fyrstu blöndurnar.

Gunnar kom til Íslands í mars 1969 og var viðstaddur þegar fyrstu vörurnar voru framleiddar og fóru þær í verslanir 31. mars 1969.

Himmerlands is starfaði til ársins 1980 en var þá seld til Eventyr ís í Danmörku sem var með stærstu ísgerðum þar í landi og lokuðu þeir fljótt starfseminni í Aars. Faðir Gunnars, Peder Sauer, hafði stofnað mjólkurbú árið 1928 og hófu þeir ísframleiðslu árið 1930, Gunnar sá um ísframleiðsluna frá 1947 og gekk hún vel en mjólkurbúið hætti starfsemi 1960. Um Gunnar var sagt að á sólríkum sumardögum þegar íssalan gekk sem best þá flautaði hann gjarnan lagstúfa við vinnu sína svo heyrðist útá Nibevej í Aars.  Gunnar og kona hans Emmy bjuggu í miðbæ Aars og lést Gunnar í maí 2007, 89 ára að aldri.

Það má því segja að uppskriftir ísframleiðslu Himmerlands is lifi enn á Íslandi á grunni þessarar miklu mjólkur og ísframleiðslusögu í Aars á Jótlandi. 

Himmerlands is við Nibevej 4 í Aars, Gunnar og Emmy bjuggu á efstu hæð hússins.