Fara í efni

Ostagerðin hf

Forveri Kjörís var fyrirtækið Ostagerðin hf sem var stofnuð 1966. Hafsteinn Kristinsson var mjólkurtæknifræðingur og hafði unnið hjá Mjólkurbúi Flóamanna, Osta og smjörsölunni og Búnaðarfélagi Íslands. Hann bjó yfir mikilli frumkvöðla hugsjón og langaði að kynna fyrir Íslendingum osta vörur sem voru óþekktar í landinu en hann hafði kynnst í sínu námi og dvöl erlendis. Þetta voru ostar eins og port salut, camenbert, smurostar, mysingur og fleiri.  Hafsteinn samdi við nokkra bændur í Ölfusi og Flóa sem gerðust hluthafar í Ostagerðinni, lögðu inn mjólk og höfðu trú á þessum unga manni sem kom með hugsjónir inn í kerfi sem stjórnað var að mestu af Mjólkursamsölunni. 

Bændur sem lögðu inn mjólkina sáu tækifæri í að geta aukið söluvirði mjólkur sinnar og voru ekki sáttir með þróun mála í mjólkurframleiðslu landsins.
Framleiðsluráð landbúnaðarins og Mjólkursamsalan sem var allt saman rekið af sömu mönnunum var meinilla við þessa nýju starfsemi og taldi hana aðför að bændastéttinni eins og blaðagreinar þesstíma geta vitnað um.  Fór svo að bréf barst frá Framleiðsluráði landbúðnaðarins þar sem afnumdar voru niðurgreiðslur á mjólk til Ostagerðarinnar hf.  Þar með hefði þurft að hækka verð varanna gríðarlega og í raun stoðum kippt undan starfseminni.  Ostagerðin hætti starfsemi 1968 um tveimur árum eftir að hún byrjaði vinnslu.