Fara í efni

Gylfi Hinriksson og Dairy Queen

Gylfi Hinriksson var fæddur á Akranesi árið 1925, véltæknifræðingur að mennt frá Tækniskólanum i Stokkhólmi. Gylfi stofnaði og rak sín eigin fyrirtæki eins og ryðvarnarfyrirtæki, Bílaskoðun og Stillingu, ásamt heildsölunum Pappísvörur og G. Hinriksson. Gylfi kom einnig að stofnun eins fyrsta ísfyrirtækis landsins sem var Ísbúðin hf sem framleiddi og seldi undir leyfi Dairy Queen árið 1954. Meðeigendur Gylfa í Dairy Queen voru bræðurnir Vilhjálmur og Þorvarður Árnasynir. Á þessum árum var einnig stofnuð Rjómaísgerðin í eigu Pálma í Hagkaup og Steingríms Hermannssonar. Báðar þessar ísgerðir spruttu upp í kjölfar komu bandarískrar menningar til landsins með tilkomu hersins í Keflavík. Gengu ísgerðirnar vel, voru með eigin ísbúðir samhliða því að framleiða vörur í verslanir. En þegar Mjólkursamsalan ákvað að hefja ísframleiðslu árið 1960 varð þessum litlu frumkvöðlafyrirtækjum gert óhægt að fá hráefni og halda áfram starfsemi í samkeppni við Mjólkursamsöluna. M.a. segir Steingrímur Hermannsson í ævisögu sinni "Að mínu mati var þetta ljótt dæmi um misbeitingu valds í skjóli einokunar" (Steingrímur Hermannsson ævisaga, I bindi, bls 215). Einnig rifjar Vilhjálmur Árnason upp sögu þeirra Dairy Queen manna í grein í Morgunblaðinu 1994.

Gylfi var ávallt ósáttur við þessi endalok ísgerðar Dairy Queen og þegar hann frétti af örlögum Ostagerðarinnar í Hveragerði og frumkvöðlinum Hafteini Kristinssyni, þá setti Gylfi sig í samband við Hafstein og ámálgaði við hann að breyta Ostagerðinni í ísgerð, sem og þeir gerðu.  Var Kjörís stofnað árið 1968 og vörurnar á markað í mars 1969. 

Gylfi kom sem hluthafi í Kjörís ásamt bróður sínum Braga.  Reyndist Gylfi ötull talsmaður einkaframtaksins, var úrræðagóður og fylginn sér í verkefnum. Gylfi og Hólmfríður Guðmundsdóttir eiginkona hans voru mikli áhrifavaldar í uppbyggingu Kjörís.  Bragi seldi sinn hlut tiltölutega fljótt en Gylfi átti hlut í Kjörís fram til ársins 1988, þegar hann ákvað að selja sinn hlut til Hafsteins og bræðra hans, Guðmundar og Sigfúsar. 

Gylfi lést árið 2001.